Þessi síða er á ábyrgð Færeyjanefndar Háskóla Íslands. Á henni er að finna upplýsingar um rannsóknasamstarf Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja. Saga þessa samstarfs nær a.m.k. þrjá áratugi aftur í tímann þegar fyrsti samstarfssamningur háskólanna tveggja var undirritaður og ráðstefnuröðin Frændafundur var sett á fót. (Hlekk á nýjasta samninginn má finna hér fyrir neðan.) Heitið Frændafundur var valið til að leggja áherslu á þau sérstöku tengsl sem eru milli Íslands og Færeyja en orðið Frændafundur er gott og gilt bæði á íslensku og færeysku.

Samningur 2022

Frá fyrsta Frændafundi 1992 hefur þessi ráðstefna verið haldin á þriggja ára fresti og stefnt er að því að halda næstu ráðstefnu sumarið 2025 í Færeyjum. Hugvísindi hafa löngum verið fyrirferðarmikil á Frændafundum en markmiðið nú er að ráðstefnan endurspegli sem allra best þær fjölbreytilegu rannsóknir sem eru stundaðar á ólíkum fræðasviðum í Háskóla Íslands og á Fróðskaparsetrinu.

Fróðskaparsetrið var stofnað árið 1965 undir heitinu Academia Færoensis en hlaut ekki formlega viðurkenningu sem háskóli fyrr en 1990. Nú eru þar um 1.000 nemendur og þeir geta valið um 24 námsleiðir á grunn- og framhaldsstigi. Núverandi rektor er Martin Zachariasen (frá 1. janúar 2023).

Aukið rannsóknasamstarf milli Íslands og Færeyja er mikilvægt fyrir bæði löndin. Frá íslenskum sjónarhól er mjög margt áhugavert við Færeyjar, hvort sem litið er til náttúru landsins, samfélags, sögu, menningar eða tungumáls. Það er margt sameiginlegt með löndunum tveimur en líka ýmislegt sem skilur á milli. Þannig eru Færeyjar enn í ríkjasambandi við Danmörku og hafa ekki fulla stjórn á öllum sínum málum, t.d. löggæslu og réttarkerfi. Þá er landið eitt kjördæmi (frá og með kosningunum 2008) og persónukjör ræður því hvaða einstaklingar komast á þing.