Rannsóknasamstarf

Rannsóknasamstarf Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja byggist að miklu leyti á ráðstefnuröð sem nefnist Frændafundur. Þetta heiti var valið til að leggja áherslu á þau sérstöku tengsl sem eru milli Íslendinga og Færeyinga en orðið sjálft er gott og gilt bæði á íslensku og færeysku.

Frá fyrsta Frændafundi 1992 hefur þessi ráðstefna verið haldin á þriggja ára fresti en frá og með Frændafundi 11 (árið 2022) verður ráðstefnan haldin á tveggja ára fresti. Hugvísindi hafa löngum verið mjög fyrirferðarmikil á Frændafundum en markmiðið nú er að ráðstefnan endurspegli sem allra best þær fjölbreytilegu rannsóknir sem eru stundaðar á ólíkum fræðasviðum í Háskóla Íslands og á Fróðskaparsetrinu.

Fróðskaparsetrið var stofnað árið 1965 undir heitinu Academia Færoensis en hlaut ekki formlega viðurkenningu sem háskóli fyrr en 1990. Nú eru þar um 1.000 nemendur og þeir geta valið um 24 námsleiðir á grunn- og framhaldsstigi. Núverandi rektor er Chik Collins en hann tók við starfinu haustið 2019.

Aukið rannsóknasamstarf milli Íslands og Færeyja er mikilvægt fyrir bæði löndin. Frá íslenskum sjónarhól er mjög margt áhugavert við Færeyjar, hvort sem horft er á náttúru landsins, samfélagið, sögu og menningu eða tungumálið. Það er ekki síst vegna þess að það er margt sameiginlegt með löndunum tveimur en líka ýmislegt sem skilur á milli. Þannig eru Færeyjar enn í ríkjasambandi við Danmörku og hafa ekki fulla stjórn á öllum sínum málum, t.d. löggæslu og réttarkerfi. Þá er landið eitt kjördæmi (frá og með kosningunum 2008) og persónukjör ræður því hvaða einstaklingar á sama framboðslistanum komast á þing.